Saga Lionshreyfingarinnar

Upphafið
Alþjóðasamband Lionsklúbba var formlega stofnað í Chicago í Bandaríkjunum 7. júní 1917. Stofnandi hreyfingarinnar var kaupsýslumaðurinn Melvin Jones. Strax á fyrsta Alþjóðaþingi Lionshreyfingarinnar sem haldið var þetta sama ár í Dallas voru mættir 800 fulltrúar frá 23 Lionsklúbbum, svo að snemma hafa Alþóðaþingin verið fjölmenn.

Tilgangur með stofnun Lionsklúbbanna var að mynda samtök, sem eru óháð stjórnmálaflokkum og trúmálafélögum, og inna af hendi ýmiss konar þjónustu á sviði líknar- og mannúðarmála um leið og þau efla félagsanda og heilbrigt félagslíf. Lionsklúbbur er því heppilegur og áhrifaríkur vettvangur fyrir sameiginleg átök manna, hvort sem er í þjóðlegu starfi eða alþjóðlegu.

Sá einstaki atburður sem einna hæst ber í sögu Lionshreyfingarinnar var árið 1925 er Helen Keller ávarpaði félaga á Lionsþingi í Cedar Point, Ohio í Bandaríkjunum. Þar skoraði hún á Lionsmenn að gerast “riddara hinna blindu í krossförinni gegn myrkrinu”. Lionsmenn tóku þeirri áskorun sem hefur haft ómæld áhrif á skuldbindingar og störf félaganna.

Hreyfingin óx hratt fyrstu árin og árið 1927 var fjöldi Lionsklúbba orðinn 1810 og fjöldi félaga 61.000. Þannig hefur hreyfingin vaxið og dafnað og orðið æ traustari með hverju árinu sem liðið hefur. Undanfarin ár hefur klúbbunum fjölgað svo ört, að nýr klúbbur er stofnaður á degi hverjum. Er nú svo komið að það eru starfandi Lionsklúbbar í flestum þjóðlöndum heims.