Lionsklúbbarnir eru samtök, sem eru óháð stjórnmálaflokkum og trúmálafélögum, en inna af hendi ýmiss konar þjónustu á sviði líknar- og mannúðarmála. Þeir eru skipaðir athafnasömu og félagssinnuðu fólki.
Tilgangur Lionsklúbbanna er annar og meiri en að efla félagsanda og heilbrigt félagslíf félaganna, þótt það sé í sjálfu sér mikilvægt atriði. Hann er að fylgjast með þörfum samfélagsins og finna leiðir til að fullnægja þeim, annað hvort með eigin átaki eða í samvinnu við aðra aðila, og er sérstök áhersla lögð á líknar-, mannúðar- og menningarmál. Lionsklúbbar eru því heppilegur og áhrifaríkur vettvangur fyrir fólk sem vill í sameiningu vinna að ákveðnum málefnum.
Meðal sameiginlegra verkefna Lionshreyfingarinnar á Íslandi má m. a. nefna: Medic Alert, unglingaskipti, vímuvarnir-Lions Quest, sjónvernd, Orkester Norden o. fl.
Lions Clubs International er stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum árið 1917. Hún starfar í um 180 þjóðlöndum og er fjöldi félaga um ein og hálf milljón karla og kvenna.
Ísland er fjölumdæmi (MD 109) sem skiptist í tvö umdæmi, 109-A og 109-B. Í A-umdæmi eru 44 Lionsklúbbar, 1 Lionessuklúbbur og 5 Leoklúbbar. Í B-umdæmi eru 44 Lionsklúbbar og 2 Leoklúbbar. Um 2500 manns starfa í þessum klúbbum.
Í Lions vinna konur og karlar saman að ýmsum verkefnum til góðs fyrir mannkyn allt. Hugsjónir Lionsmanna eru óheftar af landamærum.
Í Lions vinnur fólk, ungir og aldnir, að þjóðþrifamálum á sínu svæði og sameiginlega á alþjóðavettvangi.
Í Lions myndast farvegur umræðna sem efla og þroska félagana.